154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

sumarlokun meðferðardeildar Stuðla .

[15:41]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki krafa um sparnað á Stuðlum. Við erum búin að auka fjármagn til Stuðla með fjárveitingum á síðustu mánuðum þar sem við höfum verið að setja inn aukið fjármagn til að mæta því. Hins vegar er fíkniheimili á Suðurlandi lokað vegna myglu og raka. Við erum að finna leiðir með Barna- og fjölskyldustofu til að mæta því, þannig að ef um það heimili er að ræða þá munum við finna leiðir til að mæta því og ætlum að gera það í sameiningu, þótt það sé áskorun. Hins vegar er það þannig þegar kemur að málefnum barna með flókinn og fjölþættan vanda að rétt er að þar vantar inn fjármagn. Það er líka þannig að þar getum við gert miklu betur sem samfélag. Tillögur að því liggja fyrir hvernig við getum í sameiningu með ríki og sveitarfélögum sparað marga milljarða á ári með því að samhæfa þetta og erum við að vinna að því með uppbyggingu sem fyrirhuguð er í Skálatúni í Mosfellsbæ. En varðandi Stuðla þá vil ég ítreka það aftur að ég hef engar fregnir fengið af því að það standi til að loka Stuðlum í sumar. (Forseti hringir.) Það eru þá nýjar fregnir fyrir mér og ef það er svo þá mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma í veg fyrir það. Og það eru engir útúrsnúningar fólgnir í því, það eru blákaldar staðreyndir.